Verkefni
Nýr leikskóli í Urriðaholti
Samkeppnistillaga - 1. Verðlaun
TEYMI: HJARK + sastudio + exa nordic | Tiago Sá, Hulda Jónsdóttir, Arnar Björn Björnsson, Victor Óli Búason, Lukas Kalivoda, Rodolfo Coehlo, Inna Ivanova | Ráðgjafar: Arkibygg STAÐSETNING: Garðabær, Ísland VERKKAUPI: Garðabær STAÐA VERKEFNIS: Hönnun lýkur í febrúar 2022. Áætluð verklok framkvæmda 2023.
exa nordic vann að samkeppnistillögunni með arkitektateymum sastudio og Huldajons, og vinnur nú að fullnaðarhönnun burðarvirkja ásamt því að sinna ráðgjöf í tengslum við byggingareðlisfræði og rakaöryggi.
Leikskólinn við Holtsveg 20 verður 6 deilda leikskóli fyrir allt að 120 börn frá 1 árs aldri. Í uppbyggingu Urriðaholts hefur verið mikil áhersla á að byggðin sé umhverfisvæn og í góðum tengslum við náttúruna í kring. Hönnun leiksskólans uppfyllir sömuleiðis háar væntingar um vistvænar lausnir og sóst verður eftir Svansvottun. Leikskólinn verður byggður úr krosslímdum timbureiningum (KLT) á steyptum undirstöðum. Sem hluti af kröfum Svansins eru gerðar miklar kröfur til rakaöryggis við hönnun og framkvæmd sem er lykilforsenda fyrir vel heppnaðar byggingar úr KLT.
Í dómnefndaráliti framkemur:
“Tillagan Urriðaból er heildstæð bygging með skemmtilegu uppbroti í formi sem skapar minni kvarða. Þá sýnir tillagan 5 mismunandi húshluta sem eru með mismunandi hæð og gefur yfirbragð húsaþyrpingar og telur dómnefndin það mikinn kost. Heildarmynd hússins er í takt við deiliskipulag Urriðaholts og sýna útlitsmyndir hvernig byggingin fellur vel að umhverfi og byggingum í næsta nágrenni. Þá skyggir byggingin ekki á útsýni nærliggjandi íbúðarhúsa. Lega hússins í lóð er nokkuð neðarlega og eru bæði tröppur og rampar frá bílastæðum að jarðhæð leikskólans og er húsið nánast hæð neðar en hæðarkóti við götu. Þennan hæðarmismun mætti mýkja og vinna betur. Útlit leikskólans
er vel leyst með mismunandi klæðningum úr áli og timbri með misstórum gluggum, glerflötum og gróðurhúsi við inngang og þykir flæðið í húsinu einstaklega vel leyst. Leikskólinn er vel skipulagður. Gert er ráð fyrir tveimur inngöngum á jarðhæð sem er jákvætt til að dreifa umferð fólks á háannartíma. Þá er aðkoma að deildum góð og vel rúmt fyrir börnin fyrir framan hverja deild. Endurskoða mætti staðsetningu syðri inngangs þannig að hann þjóni betur starfseminni. Deildirnar eru allar á jarðhæð með góðum tengslum við útisvæði, þó mætti bæta inn rennihurðum beint út á leiksvæði þar sem því verður við komið. Aðkoma vörumóttöku er vel staðsett og aðkoma starfsmanna vel leyst ásamt þjónustu og bakrýmum. Dómnefndinni hugnaðist vel að hafa miðjusettan fjölnotasal í góðum tengslum við gróðurhús og eldhús. Tengigangur leikskólans býður upp á opin og skemmtileg rými með salnum, inngöngum, bókasafni o.fl. Sjálfar deildirnar eru sannfærandi í hönnun og bjóða upp á ákveðinn sveigjanleika þar sem hvíld og leikur getur átt sér stað í sama rými eftir þörfum. Skoða þarf hvort skipta mætti yngstu deildum í þrjú svæði. Þá er það kostur að hafa starfsmannaaðstöðuna aðskilda og á annari hæð. Þar skapast góður vinnufriður fyrir starfsmenn með vel leystri kaffistofu sem er með aðgengi út á þakgarð. Yfirbragð hönnunar innanhúss er hlýlegt og uppfyllir kröfur um vistvænar lausnir. Lóðin er nokkuð vel leyst og sýna útlitsmyndir skemmtileg form og liti í sambland við náttúruleg efni og gróður. Þá er gert ráð fyrir matjurtargarði í tengslum við leiksvæðið. Mikill kostur þykir að hafa útisvæðið heilstætt og í svipaðri hæð og er útisvæði yngstu deildar aðskilið og vel leyst. Hönnun lóðar þykir lifandi og litrík en á sama tíma er hún örugg og góð yfirsýn er fyrir starfsmenn leikskólans yfir útileiksvæðið. Skoða mætti að trappa lóðina aðeins til að lyfta húsinu og milda hæðarmismun við bílastæði og aðkomu að leikskólanum. Tillagan er í alla staði vel unnin. Hönnun leikskólans og lóðar þykir einstaklega vel heppnuð og var það einróma álit dómnefndar að veita henni 1. verðlaun”